Öryggi – Good to Know

Öryggi ferðamanna

Vefurinn safetravel.is hefur það markmið að auka öryggi ferðamanna á Íslandi með því að veita mikilvægar ferðaupplýsingar.

Ferðamenn eru hvattir til að skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is til þess að auðvelda leit í neyðartilfellum.

Í neyðartilfellum skal hringja í 112. Ef hringt er í 911 fæst sjálfkrafa samband við 112.

Öryggisatriði

Akstur á Íslandi

Ferðamenn sem aka um Ísland þurfa að kynna sér umferðarreglur og fylgjast vel með færð á vegum.

Á umferdin.is er hægt að nálgast upplýsingar um færð á vegum. Vegagerðin veitir einnig upplýsingar um færð símleiðis (s: 1777) á virkum dögum.

Um akstur á Íslandi

Umferðarreglur

12 ráð fyrir akstur um Ísland á safetravel.is

Umferðarskilti

Umferðarskilti

Hámarkshraði
Í þéttbýli: 50 km/klst
Utan þéttbýlis – á malarvegum: 80 km/klst
Utan þéttbýlis – vegir með bundnu slitlagi: 90 km/klst

Ökumenn þurfa að gæta sérstakrar varúðar í eftirfarandi aðstæðum:

Sauðfé á vegi: Ef kindur eru á veginum þarf að lækka hraðann. Oftast hlaupa þær af veginum ef flautað er á þær. Ef kind og lamb eru sitthvoru megin við veginn þarf ökumaður að gera ráð fyrir því að annað þeirra hlaupi yfir. Ef ökumaður keyrir á kind þarf að hringja í 112. Ökumenn gætu þurft að sæta ábyrgð sé keyrt á sauðfé á vegi.

Einbreiðar brýr: Þegar keyrt er að einbreiðri brú þarf að gæta varúðar og hægja á. Almennt gildir að ökutækið sem er nær, á réttinn.

Einbreið göng: Í einbreiðum göngum eru útskot til þess að bílar geti mæst. Þegar tveir bílar mætast þarf bílinn sem er með útskotið sín megin (hægra megin) að nýta það og víkja fyrir hinum. Mikilvægt er að aka hægt og varlega um einbreið göng.

Blindhæðir og blindbeygjur: Ökumenn þurfa að hægja á sér og gæta sérstakrar varúðar þegar um er að ræða blindhæðir og blindbeygjur.

Akstur á hálendinu

Vegir á hálendinu eru fjallvegir, gjarnan kallaðir „F-roads“ á ensku. Til þess að keyra fjallveg þarf að vera á vel útbúnum fjórhjóladrifnum bíl. Akstur á fjallvegum er krefjandi. Fjallvegir eru margir hverjir holóttir og það þarf oft að aka mjög hægt eftir þeim.

Ferðamenn verða að kanna hvort keyra megi á fjallvegi á viðkomandi bílaleigubíl með því að rýna leiguskilmálana áður en lagt er af stað.

Á veturna er ófært á hálendinu. Opnun fjallvega fer eftir veðurfari, en er yfirleitt á tímabilinu frá lokum maí til júníloka.

Ferðamenn sem keyra fjallvegi þurfa að búa yfir þekkingu og reynslu af akstri í krefjandi aðstæðum. Auk þess þarf að vera á vel útbúnum, fjórhjóladrifnum bíl.

Á hálendinu þurfa ökumenn oft að þvera ár. Mælt er með að ökumenn sem hafa ekki reynslu af slíku snúi við og keyri þar sem ekki þarf að þvera. Bílatryggingar ná alla jafna ekki yfir tjón sem verður þegar ekið er yfir ár.

Kynntu þér upplýsingar á safetravel.is um akstur á hálendinu.

Vinsælir fjallvegir (vegnúmer)Opnun í fyrsta lagiOpnun í síðasta lagi
Kjölur (35)24. maí15. júní
Sprengisandur (F26)20. júní9. júlí
Landmannaleið / Dómadalur (F225)28. maí14. júlí
Sigalda í átt að Landmannalaugum (F208)24. maí20. júní
Aðrir fjallvegirsjá hér

Veður og öryggi

Veðurviðvaranir

Veður á Íslandi getur breyst á örskömmu tíma og því er mikilvægt að fylgjast alltaf vel og reglulega með veðurspám. Vindur og vindhviður geta verið sérstaklega hættulegar. Hægt er að lesa meira um veðrið á Íslandi hér.

Veðurstofa Íslands gefur út litamerktar veðurviðvaranir (grænar, gular, appelsínugular og rauðar) í samræmi við hættustig. Rauð viðvörun samsvarar hæsta hættustiginu.

Þegar veðurviðvörun er í gildi er það tilkynnt á vef Veðurstofu Íslands í gulum kassa og í hægra horninu efst á forsíðunni.

Með því að smella á viðvörunina getur þú fengið nánari upplýsingar um viðvörunina, þ.m.t. hvers konar veðri von er á, hvað það mun standa lengi og hvar á landinu það gangi yfir.

Dæmi um gula viðvörun á vedur.is

Að klæða sig vel

Ferðamenn þurfa að klæða sig vel og vera viðbúnir öllum veðrum. Mikilvægt er að hafa meðferðis hlýjan, vindþéttan og vatnsheldan fatnað og geta klæðst lagskipt. Jafnframt þarf að huga að góðum gönguskóm.

Ferðafólk vanmetur oft veðrið og hefur ekki reynslu af veðri þar sem rok, rigning og kuldi skella á samtímis. Kynntu þér leiðbeiningar um viðeigandi klæðnað á safetravel.is.

Náttúruhamfarir

Á Íslandi býr fólk við fjölbreytta náttúruvá (jarðskjálfta, eldgos, snjóflóð o.s.frv.).

Þegar hætta er á náttúruhamförum eru viðvaranir birtar á forsíðu vedur.is í gulum kassa og á safetravel.is.

Þegar slíkar viðvaranir eru í gildi er mikilvægt að miðla þeim til ferðafólks og brýna fyrir því að fylgjast vel með.

Hlutverk Almannavarna er að takast á við mögulegt hættuástand (þ.m.t. náttúruvá) og upplýsa almenning um hvernig bregðast eigi við í neyðartilfellum.

Smelltu hér til að fá upplýsingar um hvernig best er að varast og bregðast við náttúruvá.

Viðvörun á forsíðu vedur.is

Björgunarsveitir

Slysavarnarfélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita. Þúsundir sjálfboðaliða og sérfræðinga eru virk í björgunarsveitum um land allt og aðstoða íbúa og ferðafólk á landi og sjó. Aðstoð í neyðartilfellum er gjaldfrjáls. Hins vegar geta ferðamenn sem fara ekki eftir reglum og koma sér vísvitandi í hættu, átt von á sekt og rukkun fyrir björgunaraðstoð.

Heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðisþjónustu er hægt að nálgast á heilsugæslustöðvum um land allt. Til að bóka tíma hjá lækni samdægurs er hægt að hafa samband við síðdegisvaktir. Smelltu hér til að finna næstu heilsugæslustöð, skoða opnunartíma og fá upplýsingar um bráðaþjónustu.

Læknavaktin býður upp á símaráðgjöf á milli 17:00 og 08:00 á virkum dögum, um helgar og á helgidögum. Sími: 1700 og 1770.

Sjúkratryggingar: Heilbrigðistryggingakerfið á Íslandi er greiðsluþátttökukerfi sem dregur úr heilbrigðiskostnaði fólks. Hins vegar er ekki öll heilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls. EES-borgarar greiða jafn mikið og íslenskir ríkisborgarar fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi svo lengi sem þeir eru með evrópska sjúkratryggingakortið. Ríkisborgarar annarra landa fá enga niðurgreiðslu og greiða fullt gjald.

Lyf er hægt að nálgast í apótekum um land allt.

Nánari upplýsingar um heilbrigðisþjónustu á Íslandi má finna hér.

Önnur öryggisatriði

Öldur: Við ýmsar strendur (t.d. Reynisfjöru) geta öldur verið varasamar og gengið langt inn á land. Slíkar öldur eru það kröftugar að þær geta hrifið fólk með sér út á sjó.

Jarðhitasvæði: Hitinn við jarðhitasvæði er oft um 100°C. Því er mikilvægt að forðast snertingu við vatnið og fylgja merktum gönguleiðum.

Hálka á göngustígum: Á veturna er oft hálka á göngustígum, sér í lagi nálægt fossum. Þá er mælt með því að nota mannbrodda.

Ferðamenn þurfa að fylgja reglum og leiðbeiningum sem standa á skiltum og þeim ber að virða afgirt svæði.