Náttúra – Good to Know
Stærð
Jöklar
Fjöll
Eldfjöll
Ár
Miðhálendi

Á Íslandi er hægt að skoða fjölmörg náttúrufyrirbæri um allt land, en heildarstærð Íslands eru 103.000 km2. Ísland er næststærsta eyja Evrópu á eftir Bretlandi.

Jöklar þekja um 11% af flatarmáli Íslands. Á kortinu má sjá nokkra af helstu jöklum landsins. Stærstir eru Vatnajökull (7.900 km2), Langjökull (900 km2) og Hofsjökull (890 km2). Vatnajökull er jafnframt stærsti jökull Evrópu.

Hér er hægt að sjá nokkur af hæstu og þekktustu fjöllum landsins. Hæstu fjöllin eru Hvannadalshnjúkur (2.110 m), Bárðarbunga (2.000 m) og Kverkfjöll (1.920 m).

Á Íslandi eru 32 virkar eldstöðvar. Eldgos verða að jafnaði á fjögurra ára fresti. Kynntu þér Íslensku eldfjallavefsjána til að fá upplýsingar um nöfn eldstöðvanna, virkni þeirra og síðustu gos.

Hér getur þú séð nokkrar af lengstu ám landsins, en Þjórsá (230 km) og Jökulsá á Fjöllum (206 km) eru lengstar.

Miðja landsins (um 40% af flatarmáli Íslands) kallast Miðhálendi og er óbyggt svæði.

Náttúruvernd

Náttúran er aðalaðdráttarafl Íslands, en hún er viðkvæm og ferðafólk getur valdið verulegum skaða með því að ganga illa um hana (t.d. með því að aka utan vega eða skilja eftir rusl). Oft eru skemmdir á náttúrunni óafturkræfar eða þær eru lengi að ganga til baka.

Til þess að vernda náttúruna þarf að ganga varlega um hana og fylgja umgengnisreglum. Jafnframt þarf ferðafólk að kynna sér reglur um aðgengi og hafa ýmis atriði í huga þegar tjaldað er utan skipulagðra tjaldsvæða.

Íslandsstofa hvetur ferðafólk til þess að heita ábyrgri ferðahegðun á Íslandi með því að undirrita The Icelandic Pledge. Um er að ræða rafrænan sáttmála um góða og ábyrga umgengni um náttúru landsins.